Eins og komið hefur fram í fréttum í dag hyggjast Stundin og Kjarninn sameinast á næstunni og verða einn sjálfstæður fjölmiðill með dreift eignarhald.
„Aðstandendur Stundarinnar og Kjarnans hafa náð samstöðu um að sameina fjölmiðlana tvo. Útgáfufélög þeirra munu renna saman frá og með komandi áramótum og nýr miðill, með nýju nafni, mun verða til. Meginstarfsemi hans verður dagleg fréttasíða og prentútgáfa sem mun koma út tvisvar í mánuði. Fyrirhugað er að fyrsta útgáfa nýja miðilsins verði 13. janúar 2023. Þangað til munu Kjarninn og Stundin halda áfram að starfa í óbreyttu formi og þjónusta lesendur sína,“ segir í tilkynningu um málið sem lesa má í fullri lengd hér.
Er DV forvitnaðist um nafnið á nýja fjölmiðlinum hjá Þórði Snæ Júlíussyni, ritstjóra Kjarnans, svaraði hann að nafnið yrði afhjúpað þann 13. janúar næstkomandi, daginn sem nýi miðillinn verður settur í loftið. Aðspurður sagði Þórður að nýja nafnið væri nánast frágengið mál en það væri ekki orðið opinbert.
Aðalsteinn Kjartansson, rannsóknarblaðamaður á Stundinni, segir hins vegar á Twitter að hugmynd hans að nafni á nýja fjölmiðilinn hafi fallið í grýtta jörð. Hann hafi viljað að miðillinn héti „Stjarnin“. Segir hann raunar að engar hugmyndir hans að nafni á nýja, sameinaða fjölmiðlinum hafi mælst vel fyrir. Fastlega má búast við því að um sé að ræða létt grín hjá blaðamanninum.
St-jarn-in? Einhverra hluta vegna hafa engar hugmyndir frá mér um nafn hlotið hljómgrunn. https://t.co/RF0EvEhyLf
— Aðalsteinn (@adalsteinnk) December 21, 2022