Slæm loftgæði í leikskólanum Grandaborg í Reykjavík má rekja til þess að loftræstikerfið blés saurlofti inn til leikskólabarna og starfsmanna leikskólans. Þetta kemur fram í forsíðufrétt Fréttablaðsins í morgun.
Á fundi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar var farið mál leikskólans. Greinir Fréttablaðið frá því að í minnisblaði Helga Grímssonar, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, hafi komið fram að aðalorsök slæmra loftgæða á leikskólanum hafi verið skriðkjallari undir húsinu og hönnun á loftræstikerfi. „Ennfremur kom í ljós að skólprör hafði farið í sundur vegna þess að húsið hefur sigið á liðnum árum. Þar af leiðandi hafði skólp seytlað ofan í jarðveg í kjallaranum. Loftræstikerfið blæs svo lofti úr kjallaranum, upp í húsnæði leikskólans,“ sagði í minnisblaðinu.
Þessi vandræði urðu til þess að leikskólanum var lokað og starfsemin flutt á þrjá staði í október síðastliðnum. Ekki var komið til móts við óskir foreldra um að starfsemin yrði færð á einn stað en ekki hefur gengið að finna hentugt húsnæði.
Mikið hefur gengið á í starfi leikskólans í byrjun desember var greint frá því að nokkrir starfsmenn hefðu sagt upp störfum vegna óánægju með framkomu og meintan óheiðarleika Reykjavíkurborgar gagnvart börnum, foreldrum starfsmönnum og leikskólastjóra Grandaborgar.
Þá kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins að rakaskemmdir og mygla hafa nú fundist í alls 28 leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum á þessu ári og samkvæmt heimildum blaðsins blasir við að tveimur öðrum leikskólum verði lokað á næstunni. Leikskólastjórar eru orðnir langþreyttir á ástandinu í húsnæðismálum og undrast þögn ráðamanna.