Á fréttamannafundi í gær sagði hann að með aðgerðum sínum hafi Bandaríkin gert Úkraínu að ógn við tilvist rússnesku ríkisstjórnarinnar og því geti hún ekki horft fram hjá.
Hann varði um leið árásir Rússar á orkuinnviði í Úkraínu og sagði að Rússar væru að taka þessi kerfi úr sambandi því þau geri Vesturlöndum kleift að dæla banvænum vopnum inn í Úkraínu. Vopnum sem séu notuð til að drepa Rússa. Hann skýrði ekki nánar hvert samhengið er þarna á milli.
„Segið svo ekki að Bandaríkin og NATO taki ekki þátt í þessu stríði. Þið takið beinan þátt í því. Ekki bara með vopnasendingum, heldur einnig með þjálfun. Þið þjálfið úkraínska herinn á ykkar svæði,“ sagði hann og bætti við að markmið Vesturlanda sé að eyðileggja Rússland.