Einn þessara áróðursmeistara er Vladimir Solovyov. Hann stýrir umræðuþáttum á Russia-1 sjónvarpsstöðinni. Þar hvetur hann reglulega til notkunar kjarnorkuvopna í Úkraínu og að ráðist verði á Eystrasaltsríkin og Pólland.
Solovyov er orðinn einhverskonar óopinber talsmaður innrásarinnar í Úkraínu og það er frekar regla en undantekning að hann prediki um dauða og eyðileggingu yfir Vesturlöndum í þætti sínu „Kvöldið með Vladimir Solovyov“.
En í vikunni færðist hann enn frekar í aukana og hvatti til árás á Noreg. Dagbladet skýrir frá þessu.
Hann sagði þá að Frakkar standi nú naktir og geti þakkað Emmanuel Macron, forseta, það vegna stuðnings þeirra við Úkraínu í stríðinu. Því næst beindi hann orðum sínum að Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO: „Hvaðan er Stoltenberg? Noregi? Skjótið á þá! Er hann norskur eða danskur?“ sagði hann.
Arne Bård Dalhaug, fyrrum hershöfðingi í norska hernum, sagðist í samtali við Dagbladet ekki hafa miklar áhyggjur af þessum ummælum. Hann sagðist telja það algjörlega óraunhæft að Rússar ráðist á Noreg en þetta bætist í safn óábyrgra ummæla sem rússneskir stjórnmálamenn hafa beint að Noregi. Hann sagði að ummæli Solovyov séu frekar einhverskonar „meðal innanlands“ til að vinna gegn andstöðu almennings við stríðið frekar en að þau séu stefna rússnesku stríðsvélarinnar.