Á föstudaginn stóð yfir leit björgunarsveita í Þykkvabæjarfjöru í Árnessýslu vegna tvítugs manns sem er saknað. Bíll hans fannst í fjörunni, niður undir sjó. Víðtæk leit fór fram með aðstoð dróna, sporhunda og þyrlu Landhelgisgæslunnar, en maðurinn hefur ekki fundist.
Hvarf unga mannsins er þungt högg í strjálbýlu byggðarlagi Árness. Aðstæður móður unga mannsins eru með þeim hætti að hvarf hans kallar á aðstoð nágranna og vina. Hefur verið hrundið af stað söfnun fyrir konuna en meðal forsvarsmanna söfnunarinnar er sóknarpresturinn Óskar Hafsteinn Óskarsson.
„Hún er með þrjú börn heima, tvö á grunnskólaaldri og eitt eldra. Hún býr í samfélagi okkar án fjölskyldu eða félagslegrar aðstoðar en þarf aðstoð okkar núna. Hún er að flytja í nýtt húsnæði sem hún keypti með aðstoð sonar síns en þar vantar eldhús sem þarf að fjármagna ásamt því að létta henni jólahald,“ segir í texta um söfnunina sem birtur er á Facebook-síðu Hrunaprestakalls.
„Þetta er samstarfsfólk móður drengsins og fleiri velunnarar. Um leið eru þetta líka bara vinir og nágrannar, fólk finnur til skyldu sinnar þegar svona kemur upp í litlu samfélagi. Samfélagið er eins og einn maður í svona,“ segir Óskar í samtali við DV.
„Ég er ein af sameignum þessa litla samfélags, prestsembættið hefur snertifleti við flesta bæi í sveitinni,“ segir Óskar ennfremur og segir atburðinn vera ömurlegan. „Fátt er hægt að hugsa sér nöturlegra,“ segir hann og minnir um leið á hvað samstaða og samhugur eru mikilvæg á stundum sem þessum.
Reikningsupplýsingar vegna söfnunarinnar eru hér að neðan. Óskar er ábyrðarmaður söfnunarinnar.