Skiptum er lokið í þrotabúi Leigufélagsins ehf. sem var lýst gjaldþrota árið 2018, að kröfu Íbúðalánasjóðs sem hafði lánað félaginu stórfé. Tilkynning um skiptalokin birtist í Lögbirtingablaðinu í dag. Lýstar kröfur í búið námu hátt í tveimur milljörðum króna eða: 1.881.361.210 kr. Töluvert fékkst upp í kröfur, rétt rúmur milljarður, eða 56,12%.
Leigufélagið ehf. var stofnað árið 2003. Stofnandi þess var Gunnar Pétur Árnason og var hann eigandi alls hlutafjár í félaginu ásamt eiginkonu sinni, Freydísi Björnsdóttur. Gunnar Pétur átti líka fyrirtækið Verkvík-Sandtak ehf. Árið 2018 fór þrotabú Leigufélagsins í mál við Verkvík-Sandtak og krafðist þess að meint skuld Leigufélagsins við Verkvík-Sandvík yrði ómerkt og greiðslun inn á skuldina rift, en um var að ræða rúmlega 77 milljónir. Þrotabúið tapaði málinu fyrir héraðsdómi en Landsréttur sneri dómnum við og rifti greiðslum Leigufélagsins ehf. á skuld við Verkvík-Byggingar (félagið hafði breytt um nafn í millitíðinni).
Sjá nánar hér
Skiptastjóri þrotabús Leigufélagsins ehf. var Sigurður Kári Kristjánsson hæstaréttarlögmaður. Hann upplýsir í svari við fyrirspurnum DV að félagið hafi átt fjölmargar fasteignir á Akranesi og í Garðinum, sem það leigði út á almennum markaði. Þessum eignum var komið í verð með sölu við skipti á þrotabúinu. Þetta skýrir hvers vegna rúmlega helmingur fékkst upp í kröfur í búið.
Þess má geta að Leigufélagið ehf. er enn skráð í símaskrá, á já.is, með sömu kennitölu og heimilisfang og áður. Samkvæmt opinberum gögnum er fyrirtækið þó ekki lengur starfandi.