Í vor var manni birt ákæra vegna atviks sem átti sér stað í mars árið 2020. Var maðurinn sakaður um að hafa elt þáverandi vin sinn með kúlublys á lofti og skotið í bak honum. Elti hann, samkvæmt ákæru, manninn upp á Arnarnesveg og hrinti honum. Við það féll brotaþoli fram fyrir sig en þá á ákærði að hafa haldið honum niðri og sett fingur í endaþarm hans.
Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í dag en það hefur velkst nokkuð um í kerfinu. Í fyrstu var rannsókn lögreglu hætt en hún svo tekin upp að nýju fyrir áeggjan Ríkislögreglustjóra. Hinn ákærði krafðist frávísunar fyrir héraðsdómi og var orðið við því en Landsréttur hnekkti þeirri ákvörðun.
Aðalmeðferð var síðan fyrir Héraðsdómi Reykjaness í síðasta mánuði. Hinn ákærði krafðist sýknu á grundvelli fyrningar en nokkuð er um liðið síðan atvikið varð. Kom fram að maðurinn hefur snúið við lífi sínu eftir þetta atvik en mennirnir voru báðir á þessum tíma í fíkniefnaneyslu.
Ekki varð dómurinn við þeirri sýknukröfunni. Þegar metin voru sönnunargögn, t.d. framburður vitna, þ.á m. lögreglumanna á vettvangi, sem og rafræn samskipti mannanna eftir atvikið, þótti sannað að hinn ákærði hefði framið þessi afbrot.
Var hann dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu miskabóta upp á hálfa milljón króna. Töluverður málskostnaður fellur einnig á hann.