Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) hefur gefið út skýrslu vegna úttektar á starfsemi félagasamtakanna Hugarafls, en úttektin hófst þann 20. apríl á þessu ári. Hugarafl eru grasrótarsamtök fólks með andlegar áskoranir og veita einstaklingum með slíkar áskoranir gjaldfrjálsa viðtalsmeðferð. „Starfsemi Hugarafls er mótuð bæði af einstaklingum með persónulega reynslu af andlegum áskorunum (stundum kallað notendur) og einstaklingum með fagmenntun,“ segir á vefsíðu samtakanna.
Í fyrra varð nokkur fjölmiðlaumfjöllun um starfsemi samtakanna í kjölfar kvartana nokkurra notenda þjónustunnar og félaga í samtökunum sem sökuðu stjórnendur um einelti og ógnarstjórnun. Þessu var harðlega mótmælt af hálfu stjórnar samtakanna en málið fór inn á borð félagsmálaráðherra sem lét GEV gera áðurnefnda skýrslu.
Í frétt GEV um skýrsluna segir meðal annars:
„Lagði GEV til að ef þjónustusamningur milli aðila yrði endurnýjaður verði hugað að því að samningnum fylgi ítarleg kröfulýsing fyrir þjónustuna svo ljóst sé hvaða kröfur eru gerðar til Hugarafls um m.a. gæði þjónustu, mat á árangri og faglega skráningu á framvindu, sér í lagi varðandi einstaklinga í endurhæfingu.
Jafnframt lagði GEV til að Vinnumálastofnun sinni reglulegu eftirliti með starfsemi Hugarafls á grundvelli kröfulýsingar til að tryggja að markmiðum samnings sé náð og að starfsemin uppfylli kröfur Vinnumálastofnunar.“
Segir að niðurstöður viðtala bendi til þess að starfsemi Hugarafls hafi nýst mörgum vel við að bæta lífsgæði sín og ná bata. „Mikilvægt er fyrir notendahópinn að til staðar sé lágþröskuldaúrræði þar sem áhersla er lögð á opið aðgengi, einstaklingsmiðaða nálgun, bata, valdeflingu og jafningjastuðning. Þá virðist þátttaka í verkefnum og sjálfboðaliðastörfum vera mikilvægur þáttur í valdeflingu og bata félagsmanna,“ segir í frétt GEV.
Hins vegar er bent á að vísbendingar séu um að samtökin nái ekki að anna víðtæku hlutverki sínu nægilega vel og reiði sig um of á þátttöku sjálfboðaliða í starfseminni, sem geti bitnað á bata félagsmanna. Er lagt til að stjórnendur endurskilgreini hlutverk og markmið starfseminnar.
Ennfremur leggur GEV til endurskoðun á stjórnun og stórnarháttum innan Hugarafls í „í ljósi sterkra vísbendinga um að framkoma stjórnenda hafi verið ámælisverð. Niðurstöður viðtala bentu til þess að stjórnendur hafi brotið trúnað við félagsmenn og hafi brugðist við gagnrýnisröddum félagsmanna með ófullnægjandi hætti. Einnig bentu niðurstöður til að minna sé hlustað á rödd félagsmanna innan samtakanna en áður.“