Þegar rússneskir hermenn hörfuðu frá bænum, sem er norðvestan við Kyiv, skildu þeir lík almennra borgara eftir á götum og í fjöldagröfum. Skelfingu lostnir bæjarbúar skýrðu frá nauðgunum, ránum og tilviljanakenndum aftökum.
CNN tók nýlega viðtal við einn af rússneskum hermönnunum sem voru í Bucha í vor.
„Þetta eru til klikkhausar sem njóta þess að drepa fólk. Það voru þannig klikkhausar sem voru í Bucha,“ segir hermaðurinn í samtali við CNN.
Hann heitir Nikita Chibrin og er nú á Spáni þar sem hann hefur sótt um hæli en hann gerðist liðhlaupi og komst til Spánar.
Hann var með 64. herdeild rússneska hersins í Úkraínu en henni stýrir Azatbek Omurbekov sem gengur nú undir viðurnefninu „Slátrarinn frá Bucha“. Hann og allir í herdeildinni eru á lista Vesturlanda um þá Rússa sem eru beitti refsiaðgerðum og í Úkraínu eru þeir stimplaðir sem stríðsglæpamenn.
En í Rússlandi heiðraði Vladímír Pútín, forseti, herdeildina fyrir „hetjudáð“ og „hugrekki“.
Chibrin segir í viðtalinu að hann hafi séð nauðganir og rán og þjófnaði með eigin augum en ekki morð á almennum borgurum. Hann segir að herdeildin hafi fengið bein fyrirmæli um að drepa alla þá sem deildu upplýsingum um hvar hún héldi sig. „Ef einhver var með síma, þá höfðum við heimild til að skjóta hann,“ segir hann.
Ekki er annað að sjá en að morð á almennum borgurum hafi viðgengist í bænum á meðan á hernámi Rússa stóð. Þegar vestrænir fréttamenn komu til bæjarins í byrjun apríl, þegar Rússar höfðu hörfað þaðan, sáu þeir minnst 30 lík liggjandi á einni götu. Sum voru með hendurnar bundnar fyrir aftan.
Reuters skýrði frá fjöldagröfum þar sem hendur og fætur stóðu upp úr jörðinni.
Anatoliy Fedoruk, bæjarstjóri, sagði að minnst 300 almennir borgarar hafi verið drepnir á meðan á hernáminu stóð.
Chibrin segir að hermennirnir hafi stolið öllum verðmætum frá bæjarbúum, þar á meðal tölvum, skartgripum og bílum. Þeir hafi síðan selt þýfið í Hvíta-Rússlandi. „Hugarfarið var að ef þú stalst einhverju, þá varstu góður,“ segir hann.
Hann segir að það versta sem hann varð vitni að hafi verið þegar móður og dóttur hennar var nauðgað. Eftir nauðgunina voru hermennirnir tveir, sem nauðguðu þeim, eltir eftir götum bæjarins af yfirmönnum sínum. Þeir voru handsamaðir og barðir en hlutu enga formlega refsingu. „Þeir voru ekki settir í fangelsi. Þeir voru bara reknir,“ segir hann.