Leigubílstjórar lögðu undir sig Tjarnargötu í morgun og flautuðu í sífellu fyrir utan ráðherrabústaðinn á meðan ríkisstjórnarfundur stóð þar yfir.
Fréttablaðið greinir frá.
Fyrir Alþingi liggur frumvarp um breytingar á lögum um leigubílaakstur. Með samþykkt frumvarpsins verður einstaklingum og rekstraraðilum gert heimilt að reka leigubíl án þess að vera bundnir við leigubílastöð eða hafa starfið að aðalatvinnu. Getur það opnað fyrir starfsemi deilubílaþjónusta líkt og Uber sem rutt hafa sér til rúms erlendis.
Við þetta eru leigubílstjórar mjög ósáttir. Þeir telja frumvarpið hvorttveggja vega að starfsöryggi leigubílstjóra og öryggi almennings.
„Bandalag íslenskra leigubílstjóra biður ríkisstjórnina um að veita starfandi leigubílstjórum áheyrn vegna lagafrumvarps um leigubifreiðaakstur,“ segir í ákalli leigubílstjóra til ráðamanna sem lesið var upp fyrir utan ráðherrabústaðinn.
Telja bílstjórarnir að ekki sé nægilega tekið tillit til starfandi bílstjóra og aðstæðna í greininni. Daníel O. Einarsson, formaður Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra, segir í samtali við Fréttablaðið að óskað hafi verið eftir viðtali við ráðherra fyrir aðra umræðu á Alþingi um frumvarpið, en að það hafi ekki fengist og að óskað sé eftir því að beðið sé með að samþykkja frumvarpið þar til að Norðmenn hafa farið yfir endurskoðun sinna laga um leigubílaakstur, en sú vinna er í gangi.
Lögregla stöðvaði mótmæli leigubílstjóranna í Tjarnargötu í morgun og leystust þau upp áður en ríkisstjórnarfundi lauk. Meðfylgjandi myndir tók Sigtryggur Ari.