Nú er veturinn genginn í garð og á væntanlega enn eftir að sýna sínar verstu hliðar. En bardagar geisa enn víða um landið en að sögn Tormod Heier, prófessors í hernaðartækni og hernaðaraðgerðum við norska varnarmálaskólann, þá vilja Úkraínumenn forðast harða bardaga eins og nú eru háðir í suður- og austurhluta landsins.
Þetta sé vandi sem þeir takist á við því hætt sé við að þeir fari halloka út úr stórum og afgerandi orustum.
Í samtali við Norska ríkisútvarpið sagði hann Úkraínumenn séu óþreytandi við að afla sér stuðnings frá Vesturlöndum. Þeir leggi mikla áherslu á að rækta sambandið við Bandaríkin til að hafa aðgang að góðum leyniþjónustuupplýsingum, til dæmis um staðsetningar rússneskra hersveita.
Hann sagði að þeir reyni einnig sífellt að tryggja sér meiri stuðning Vesturlanda í formi vopna og skotfæra til að þeir geti notað fullkominn stórskotaliðsvopn til að skjóta á hermenn sem hafa grafið sig niður í skotgröfum. Með þessu geti Úkraínumenn haldið rússneskum hersveitum föstum um leið og þeir umkringja þær og sigrast á þeim.
Á þriðjudagskvöldið tilkynntu bandarísk stjórnvöld að þau séu að leggja lokahönd á áætlanir um að láta Úkraínu Patriot-flugskeytavarnarkerfi í té. Kerfið getur skotið flugskeyti niður. Alexander Vindman, herforingi, sagði í samtali við Reuters að kerfið geti skipt sköpum fyrir Úkraínumenn við að verjast árásum Rússa, sérstaklega ef þeir noti skammdræg írönsk flugskeyti.