Bók Lárusar Welding, sem var bankastjóri Glitnis fram að bankahruni, „Uppgjör bankamanns“, hefur vakið mikla athygli.
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, fer nokkrum orðum um bókina og örlög Lárusar í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Jón segir:
„Bókin hefur að geyma frásögn höfundar af ótrúlegri aðför sem hann mátti sæta fyrir það eitt að hafa setið í stóli bankastjóra Glitnis banka í 17 mánuði fyrir hrun, frá vormánuðum 2007 til október 2008.“
Jón segir að Lárus hafi aldrei brotið af sér og ekkert hafi gefið tilefni til þeirrar lögsóknar sem ráðist var í gegn honum. Segir Jón málið allt vera áfellisdóm yfir fyrirsvarsmönnum löggæslu í landinu:
„Það er dagljóst af öllum atvikum að Lárus braut aldrei af sér í störfum sínum sem gaf tilefni til lögsóknar gegn honum. Hann varð hins vegar fórnarlamb múgæsingar sem handhafar ákæru- og dómsvalds tóku þátt í og kyntu jafnvel undir. Þeir virðast hafa haft þörf fyrir að gera almenningi til hæfis og slá þá í leiðinni sjálfa sig til riddara í augum þjóðarinnar. Í þessum tilgangi stóðu þeir fyrir ofsóknum gegn mönnum sem stjórnað höfðu bönkunum, þar með töldum Lárusi, án þess að hlutlæg athugun á verkum þessara manna lægi þar til grundvallar.
Það hlýtur að teljast áfall fyrir þjóðina að sjá (eftirá) hversu fjarri fyrirsvarsmenn löggæslu í landinu voru því að gegna meginskyldum sínum, sem hljóta að felast í því að meta mál af réttsýni og hlutleysi eins og réttarskipan okkar krefst.“
Jón segist dást að Lárusi og segir hann vera heilsteyptan mann:
„Bók Lárusar lýsir afar heilsteyptum manni sem tók þessum ofsóknum með ótrúlegu jafnaðargeði og sálarstyrk. Ég dáist að honum. Hann reifar ekki málin fyrr en aðförinni að honum er lokið. Hann lýsir atburðarásinni og aðstoðinni sem verjandi hans Óttar Pálsson lögmaður veitti honum allan tímann. Svo er líka aðdáunarvert að kynnast sambandi Lárusar við eiginkonu sína Ágústu Margréti Ólafsdóttur, sem stóð með honum eins og klettur í gegnum þessa ömurlegu lífsreynslu. Það er ekki ónýtt að eiga slíkan maka sem verður trúnaðarvinur og samherji í þeim glímum sem lífið úthlutar manni.“
Jón óskar þess að handhafar refsivalds í landinu læri af sögu Lárusar og standi framvegis betur með hugmyndinni um réttarríki sem láti múgæsingu ekki hagga sér.