The Guardian segir að á myndbandi, sem var birt á Internetinu, sjáist að tveir brúarstólpar hafi skemmst og hluti af brúargólfinu hafi hrunið. Af þessum sökum sé brúin ónothæf fyrir þunga umferð herbíla.
Tveimur dögum fyrir þessa árás gerðu Úkraínumenn árás á rússneskar herbúðir í Melitopol. Notuðu þeir HIMARS-flugskeyti við þá árás. Talið er að fjöldi málaliða úr Wagnerhópnum svokallaða hafi fallið í árásinni en talið er að herbúðirnar hafi verið höfuðstöðvar þeirra í borginni.
Úkraínumenn eru greinilega að auka árásir sínar á Rússa í og við Melitopol og virðist sem svipað mynstur sé uppi þar og var áður en þeir náðu Kherson úr höndum Rússa. Þar réðust þeir á rússneskar hersveitir og birgðalínur þeirra.
Úkraínskar hersveitir láta nú að sér kveða austan við ána Dnipro. Svo virðist sem það sé eitt af helstu markmiðum Úkraínumanna að ná Melitopol úr höndum Rússa.