Gunnar Þór Gíslason, stjórnarformaður Íbúðafélagsins Ölmu, segir að umdeildar hækkanir félagsins á leigu hafi ekkert með græðgi að gera. Eðlilegt sé að leiguverð sveiflist rétt eins og íbúðaverð á óstöðugum markaði. Þetta kemur fram í aðsendri grein í Fréttablaðinu.
„Um allan heim ræðst fasteignaverð af byggingarkostnaði annars vegar og markaðsverði hins vegar. Að koma sér upp þaki yfir höfuðið er í raun ævistarf hér á Íslandi fyrir flest fólk og leiðangurinn því miður mikil óvissuferð vegna verðbólgu og vaxtaumhverfis. Nánast rússíbanareið. Enginn fettir samt fingur út í það að verð íbúðarhúsnæðis ráðist af markaðnum á hverjum tíma – og þar geta sveiflurnar verið býsna miklar,“ segir Gunnar Þór í grein sinni.
Gunnar Þór segir að umfjöllun um Ölmu í fjölmiðlum undanfarið hafi að einhverju leyti verið villandi. Sú hækkun á leiguverði sem Brynja Bjarnadóttir varð fyrir, 65 ára gamall leigjandi hjá Ölmu, hafi ekki gengið yfir línuna:
„Íbúðafélagið Alma rataði í fjölmiðla í síðustu viku vegna 30% hækkunar á húsaleigu til eins viðskiptavinar. Sumir, jafnvel fjölmiðlar, hafa talað um þessa hækkun í fleirtölu og gefið þannig í skyn að Alma hafi hækkað húsaleigu til allra viðskiptavina sinna um 30%. Það er alrangt. Þær hækkanir sem hluta af leigjendum okkar var tilkynnt um að kæmu til framkvæmda í upphafi næsta árs voru að meðaltali innan við tíu prósent. Þetta tiltekna tilfelli kom upp vegna þess að verið var að uppreikna og endurnýja samning sem upphaflega var stofnað til þegar leiguverð í miðbænum var lágt í miðjum kórónuveirufaraldrinum. Sá veruleiki er allt annar í dag.“
Gunnar viðurkennir hins vegar að kynning á hækkuninni til leigjandans hafi verið ábótavant og biðst hann afsökunar á því. „Um leið vil ég upplýsa að við höfum nú þegar brugðist við vegna þessara mistaka og umræðunnar sem skapaðist í kjölfarið. Við höfum endurskoðað verkferla okkar þannig að við munum héðan í frá setja hækkunum leiguverðs við endurnýjun samninga ákveðin mörk, bæta upplýsingagjöf okkar og samskipti við viðskiptavini og auka sveigjanleika þeirra leigutaka okkar sem vilja leita á önnur mið,“ segir Gunnar ennfremur.
Hann bendir á að félagslegt kerfi og óhagnaðardrifin leigufélög útvegi þeim húsaskjól sem ráði ekki við húsnæðiskostnað á markaðsverði. Alma starfi hins vegar á frjálsum markaði og þurfi að vera á „samkeppnishæfu verði samhliða því að grundvalla rekstur sinn á eðlilegri afkomu. Það hefur reynst erfiður línudans í því óstöðuga efnahagsumhverfi sem ríkt hefur á Íslandi um langt skeið.“
Gunnar bendir ennfremur á að Alma bjóði leigjendum upp á öryggi og áhyggjuleysi á leigumarkaði sem annars einkennist af óvissu og öryggisleysi. Vönduð fasteignafélög á leigumarkaði séu dýrmætur hluti af framtíðarlausnum í húsnæðismálum þjóðarinnar.