The Guardian skýrir frá þessu og segir að á hinni opinberu Telegramrás „Task Force Rusich“ hafi félagar verið beðnir um nákvæmar upplýsingar um landamærastöðvar og ferðir hermanna í Eystrasaltsríkjunum þremur en þau voru áður hluti af Sovétríkjunum. „Task Force Rusich“ samtökin hafa verið tengd við Wagnermálaliðahópinn og berjast liðsmenn þeirra nú í Úkraínu.
The Guardian segir að þessar fréttir af áhuga samtakanna á Eystrasaltsríkjunum hafi vakið upp spurningar um hver fari með yfirstjórn samtakanna. Þau eru nátengd Wagnerhópnum, sem er málaliðafyrirtæki sem náinn bandamaður Vladímír Pútíns, forseta, á og stýrir.
Heimildarmenn sögðu að þessi mjög svo sérstaka beiðni Rusich geti bent til þess að samtökin séu ósátt við ráðamenn í Kreml og gang stríðsins í Úkraínu. Ekki sé hægt að útiloka að Kreml missi stjórn á öfgahægrisamtökum sem geti gripið til öfgafullra aðferða til að kynda enn frekar undir stríðinu í Úkraínu. Þar gæti árás á NATO-ríki verið talin til þess fallin að kynda enn frekar undir átökunum.
Heimildarmennirnir sögðu ólíklegt að Kreml tengist þessu beint því leyniþjónustustofnanir hafi nú þegar örugglega upplýsingar um ferðir og staðsetningu landamæravarða og hermanna í Eystrasaltsríkjunum.