„Friðarviðræður í heild, já, þær verða væntanlega erfiðar og tímafrekar. En á einn eða annan hátt verða allir hlutaðeigandi að vera sammála um þann raunveruleika sem nú er uppi,“ sagði Pútín.
The Guardian skýrir frá þessu.
Fyrr í vikunni sagði Pútín að hættan á kjarnorkustríði fari vaxandi. „Hættan er vaxandi. Af hverju að neita því?“ sagði hann að sögn rússnesku TASS fréttastofunnar. Hann sagði einnig að stríðið muni verða langvarandi.
En hann sagði rússneskum almenningi einnig að „hin sérstaka hernaðaraðgerð“ í Úkraínu gangi eftir áætlun. „Allt er í jafnvægi. Það eru engar spurningar eða vandamál,“ sagði hann á fréttamannafundinum.
Þessi ummæli hans eru nokkuð undarleg í ljósi þess að í upphafi var reiknað með að stríðinu myndi ljúka á skömmum tíma. Nefnt hefur verið að Pútín og æðstu yfirmenn hersins hafi búist við að það tæki um tíu daga að ná Kyiv og stærstum hluta Úkraínu á vald Rússa. En nú eru tæpir tíu mánuðir liðnir og langt frá því að Rússar hafi náð markmiðum sínum.