Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og segir að áföll hafi minnkað vatnsöflunargetuna hjá Selfossveitum og Norðurorku. „Við erum búin að loka fyrir gervigras, kæla niður fjölnota íþróttahúsið og loka öllum útisvæðum í sundlaugum sveitarfélagsins,“ sagði Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri Selfossveitna í samtali við Fréttablaðið.
Samkvæmt spám getur bætt í frostið um helgina og kuldakastið jafnvel haldið áfram fram yfir áramót. Sagði Sigurður að kuldakastið geti reynt verulega á Selfossveitur ef það stendur fram að áramótum. Hann sagði að eins og staðan sé núna verði sundlaugarnar áfram lokaðar. Heimilin eru í forgangi þegar kemur að afhendingu heits vatns.
Hjá Norðurorku mældist nýlega sjór í vatninu, sem er tekið á Hjalteyri, og því hefur þurft að taka alla stækkun þar út og ganga á svæðin sem fyrir eru að sögn Hjalta Steins Gunnarssonar, fagstjóra hjá Norðurorku.
Hann sagði að vatnsnotkun sé mikil þessa dagana en miðað við núverandi stöðu lendi Norðurorka ekki í vandræðum á næstunni. Hann sagðist ekki búast við skerðingum í bráð.