Á ellefta tímanum voru karl og kona handtekin í Laugardalshverfi en þau eru grunuð um framleiðslu áfengis. Hald var lagt á ætlað áfengi sem fannst í bifreið þeirra. Hin handteknu voru látin laus að skýrslutöku lokinni.
Á þriðja tímanum í nótt var ökumaður kærður fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbraut í Garðabæ. Hraði bifreiðar hans mældist 162 km/klst en leyfður hámarkshraði er 80 km/klst. Ökumaðurinn var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.
Þrír ökumenn voru handteknir í gærkvöldi og nótt grunaðir um að vera undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Einn þeirra reyndist vera sviptur ökuréttindum.
Á sjötta tímanum í gær var tilkynnt um innbrot í geymslu í fjölbýlishúsi í Breiðholti. Þar var gömlum dúkkuvagni og fleiri verðmætum stolið.
Tveir ofurölvi menn voru handteknir í Breiðholti á áttunda tímanum. Þeir eru grunaðir um þjófnað á matvöru. Þeir voru vistaðir í fangageymslu.