Tveir menn höfðu í hótunum við dyraverði í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Mennirnir sem um ræðir voru vopnaðir hnífum og bareflum en þeir voru báðir handteknir og vistaðir í fangaklefum. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar.
Einnig kemur fram að forráðamenn eins skemmtistaðar í miðbænum eiga von á kæru þar sem dyraverðir á staðnum voru án réttinda. Þá voru aðilar undir aldri inni á staðnum. Tvö ungmenni verða einnig kærð þar sem þau framvísuðu skilríkjum sem ekki voru í þeirra eigu en umrædd ungmenni höfðu ekki aldur til að vera inni á staðnum.
Lögreglan handtók svo aðila sem var til vandræða fyrir utan skemmtistað í miðbænum, maðurinn var kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt og í kjölfarið var honum sleppt.
Nokkrir aðilar voru stöðvaðir fyrir ölvunarakstur víðs vegar um bæinn í nótt. Einn ökumaðurinn sem var stöðvaður var einnig með tveimur of marga farþega í bílnum sínum.
Í Breiðholtinu var einstaklingur í mjög annarlegu ástandi handtekinn en sá hafði verið til vandræða og var hvergi húsum hæfur samkvæmt lögreglunni. Þá var maður handtekinn í Kópavoginum vegna líkamsárásar.