fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Fréttir

Þórhildur gáttuð á framkomu útgerðarstjóra Brim við eiginmann sinn eftir áfallið

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 11. desember 2022 11:02

Mynd/Getty - Myndin tengist fréttinni ekki beint

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hafa sjómenn sál? Miðað við framkomu útgerðarstjóra Brims – þá telur hann ekki að sjómenn hafi sál.“

Svona hefst færsla sem Þórhildur Helga Þorleifsdóttir skrifar og birti á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. Í færslunni útskýrir Þórhildur hvernig eiginmaður hennar, sjómaðurinn Bogi Theodór Ellertsson, fékk kaldar kveðjur frá útgerðinni Brim þegar stutt er í jólin. Færslan hefur vakið mjög mikla athygli á Facebook en Vísir fjallaði auk þess um innihald hennar í gær.

Þórhildur segir að Bogi sé búinn að vera í fleiri ár hjá útgerðinni Brim og ekki fengið neinar kvartanir undan störfum sínum. „Eiginlega þveröfugt. Í ólgusjó lífsins hefur Bogi fengið beyglur og brot á sálina en ekki látið mikinn bilbug á sér finna. Alltaf staðið sína plikt og ekki tekið neinn aukafrítúr þrátt fyrir mikinn sjógang í lífinu síðastliðin 7 ár,“ segir Þórhildur.

„Frá árinu 2016 hefur Bogi misst 6 nána ættingja og vini löngu fyrir aldur fram, 49 ára svila úr krabbameini árið 2016, 57 ára mág úr heilablóðfalli árið 2018, 56 ára mágkonu úr krabbameini árið 2020, 15 ára barnabarn úr sjálfsvígi árið 2021 og 55 ára vinkonu úr krabbameini sama ár.“

Þórhildur segir að þrátt fyrir þessi áföll hafi Bogi aldrei tekið sér aukafrítúr og að í rauninni hafi hann verið á sjó þegar helmingur jarðarfara vina sinna og ættingja fóru fram.

„Ekki múkk um samúð eða skilning“

Í ágúst síðastliðnum gerist það svo að Bogi er staddur úti á sjó þegar ráðist er inn til nánustu vina þeirra hjóna með þeim afleiðingum að besta vinkona Boga deyr og allra besti æskuvinur hans er fluttur á gjörgæslu. Um er að ræða skotárásina sem átti sér stað á Blönduósi.

Sem fyrr segir var Bogi á sjó þegar þetta gerist en þar fær hann áfall.

Þórhildur segir áfallið hafa verið staðfest af tveimur læknum, bæði af heimilislækni Boga og trúnaðarlækni fyrirtækisins. „Í fyrsta sinn í öllum þessum missi óskar hann eftir veikindafríi, enda óvinnufær með öllu vegna líkamlegra einkenna áfalls. Jú honum tókst að fá að koma í land, enda væntanlega hættulegur sjálfum sér og öðrum við vinnu í þessu ástandi,“ segir hún.

„En þegar kom að uppgjöri túrsins, þá komu kaldar kveðjur frá útgerðarstjóranum sem neitaði að taka mark á veikindavottorðinu, áfall væri ekki veikindi og hótaði því að Bogi fengi ekki endurráðningu eftir slipp ef hann færi með málið lengra hjá sjómannafélaginu. Ekki múkk um samúð eða skilning frá þessum stjóra – sem heldur greinilega að sjómenn hafi ekki sál.“

Neitaði skipstjóranum að hafa Boga í áhöfn

Um næstu mánaðarmót hafði Bogi svo samband við forstjóra Brims sem gekk strax í það að Bogi fékk túrinn greiddan sem veikindatúr. Þórhildur segir að ekki hafi verið hægt að skilja orð forstjórans öðruvísi en að Bogi ætti tryggt bláss um borð á skipinu eftir slipp og því fór hann ekki að leita sér að nýju plássi.

„Í síðustu viku var komið að því að skipið héldi á veiðar á ný – eftir slippinn. Skipstjórinn vill hafa Boga bader áfram og sendir áhafnarlista á útgerðarstjórann.“

Þórhildur segir að útgerðarstjórinn hafi þá neitað skipstjóranum um að hafa Boga í áhöfn. „Bogi bader skal aldrei stíga fæti aftur um borð á Vigra. Útgerðarstjórinn er yfirmaður skipstjórans sem þarf að koma þessum ömurlegu skilaboðum til Boga.

„Frábær“ framkoma svona korter í jól hjá móðguðum útgerðarstjóra, sem ég held að hafi hreinlega ekki sál öfugt við alla þá sjómenn sem ég þekki.“

„Hryllilega skítleg“ framkoma

Í samtali við Vísi segir Þórhildur að hún sé gáttuð á þessari framkomu útgerðarstjórans hjá Brim. Hún segir að henni finnist framkoman vera „hryllilega skítleg“. Þá tekur hún fram að Bogi er nú kominn með vinnu hjá annarri útgerð.

„Þetta snýst ekkert endilega um peninga heldur umhyggju fyrir sjómönnum.“

Ástæðan fyrir því að Þórhildur birti færsluna er sú að hún vill að menningin breytist og að hugsað sé betur um sjómenn.

„Þetta snýst um mennskuna, að sýna þessu ekki skilning er bara svo ótrúlegt.“

Hægt er að sjá færslu Þórhildar í heild sinni hér fyrir neðan:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 4 dögum

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“