Landsmenn reyna að halda á sér hita um leið og vetrarkuldinn verður sífellt meiri og ljóst er að það hefur alvarleg áhrif ef fólk hefur hvorki rafmagn né hita.
Michael Young, yfirmaður Úkraínudeildar Mercy Group hjálparsamtakanna, segir að ef árásir Rússa á orkuinnviði halda áfram verði úkraínskir bæir og borgir nánast óhæfar til búsetu næstu mánuði. Þar verði kalt, dimmt og hættulegt. Hrun orkukerfisins sé hörmung sem bætist við þá hræðilegu stöðu sem uppi er í landinu.
Þótt bjartsýnustu spár um stöðu orkumála í Úkraínu í vetur rætist þá horfa landsmenn fram á erfiðasta vetur sögunnar. Öruggt er talið að það þurfi að skammta rafmagn og erfitt verður að halda hita á húsum.
Sergey Kovalenko, forstjóri Yasno orkufyrirtækisins, segir að miðað við núverandi aðstæður fari að rofa til í lok mars ef þjóðin lifir veturinn og rafmagnsleysið af.