Gríðarlegt mannfall hefur verið í þessum bardögum og hafa sérfræðingar líkt átökunum þarna við það sem gerðist í fyrri heimsstyrjöldinni. Það er að hermenn húka í skotgröfum og stórskotalið lætur sprengjum rigna yfir þá.
Fyrir helgi sögðust Rússar hafa náð þremur bæjum nærri Bakhmut á sitt vald. En eftir því sem bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW) segir í greiningu þá hafa Rússar ekki staðið sig mjög vel í bardögunum við Bakhmut.
Er það mat ISW að bardagarnir hafi kostað Rússa mikla krafta og valdið þeim miklu tjóni, bæði manntjóni og tjóni á hergögnum, án þess að þeir hafi náð neinum stórum áföngum.
„Aðgerðir Rússa nærri Bakhmut benda til að rússnesku hersveitunum hafi mistekist að læra af fyrri sóknaraðgerðum sínum,“ segir í greiningu ISW.
ISW segir að sóknaraðgerðir Rússa á þessu svæði séu ónauðsynlegar og hafi haft önnur áhrif en Rússar höfðu í hyggju og það geti Úkraínumenn nýtt sér.
„Sóknir Rússa við Bakhmut hafa kallað á stóran hluta af bardagafærum rússneskum hersveitum sem aftur gerir sóknir Úkraínumanna annars staðar auðveldari,“ segir ISW.