Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá bresku hugveitunni Royal United Services Institute (RUSI).
Í henni kemur fram að samkvæmt áætlun Rússa þá hafi þeir ætlað að ráðast inn í Úkraínu og hernema landið á aðeins tíu dögum til að geta innlimað landið í Rússland fyrir júlílok. Það var því mikilvægur hluti af áætluninni að villa um fyrir Úkraínumönnum og halda áætluninni leyndri til að halda úkraínskum hersveitum fjarri Kyiv.
Rússum tókst að villa um fyrir Úkraínumönnum og þegar innrásin hófst voru styrktarhlutföll herja landanna 12 á móti 1, Rússum í vil, norðan við Kyiv.
En þessi velheppnaða blekking og mikla leynd, meira að segja fyrir yfirmönnum hersins, urðu þó til þess að rússnesku hersveitirnar voru ekki nægilega vel í stakk búnar til að geta framfylgt áætluninni.
Þar sem þessi mikli liðsmunur og hröð sókn skiluðu ekki tilætluðum árangri lentu rússnesku hersveitirnar fljótlega í vandræðum þar sem Úkraínumenn gripu til vopna og kvöddu mikinn fjölda karla til herþjónustu.