Þetta hefur komið fram í rannsókn Ingibjargar Gunnarsdóttur, prófessors í næringarfræði við HÍ, sem hefur staðið yfir í áratug og snýst um næringarþörf barnshafandi kvenna.
Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að eitt þúsund barnshafandi konur hafi tekið þátt í rannsókninni. Þvag- og blóðsýni voru teknar úr konunum til að kanna næringarástand þeirra og einnig var fylgst með þarmaflóru fjölda barna þeirra kvenna sem tóku þátt í rannsókninni.
„Í rannsókninni höfum við verið að þróa einfalt skimunartæki til að finna konur sem gætu haft gagn af því að breyta mataræði sínu á meðgöngu. Kveikjan að því er að við sáum fyrir nokkrum árum að tíðni meðgöngusykursýki er algengari hjá konum yfir kjörþyngd fyrir þungun. En þá tókum við líka eftir því að þær konur sem eru yfir kjörþyngd en borða góðan og hollan mat eru ekki í meiri hættu á að fá meðgöngusykursýki,“ er haft eftir Ingibjörgu.
Hún segir að í ljós hafi komið að joð skipti miklu máli fyrir barnshafandi konur. Minni joðneysla hafi áhrif og hafi lítið joð hjá barnshafandi konum verið tengt við lakari frammistöðu barna á greindarprófum.