Það er því ekki að sjá að Rússar séu á þeim buxunum að gefast upp og hörfa frá Úkraínu, að minnsta kosti ekki frá öllum þeim svæðum sem þeir hafa á sínu valdi.
Breska varnarmálaráðuneytið sagði í gær að Rússar séu að undirbúa harða vörn Maríupol sem hefur verið á þeirra valdi síðan í apríl. Úkraínskar hersveitir hafa sótt fram víða um Úkraínu síðustu vikur og mánuði og nálgast Maríupol. Við þessu eru Rússar að bregðast.
„Líklega er búið að setja upp drekatennur á milli Maríupol og bæjarins Nikolske og frá Maríupol að bænum Staryi Krym. Maríupol er brú Rússa til Krímskagans og mikilvæg fyrir Rússa,“ segir í stöðumati Bretanna.
Drekatönn er stór pýramídalaga steypuklumpur sem er notaður til að stöðva framsókn skriðdreka. Þetta var mikið notað í síðari heimsstyrjöldinni og nú eru Pútín og hans menn sagðir vera búnir að setja verksmiðju á laggirnar til að fjöldaframleiða drekatennur.
Bretarnir segja að Rússar muni leggja allt í sölurnar til að koma í veg fyrir að Úkraínumönnum takist að rjúfa varnarlínur þeirra við Maríupol. Bæði vegna mikilvægrar staðsetningar hennar og vegna þess hversu mörgum orustum þeir hafa tapað að undanförnu.