Hin „sérstaka hernaðaraðgerð“ hans í Úkraínu, sem er auðvitað ekkert annað en stríð, gengur alls ekki eins og hann gerði ráð fyrir. Rússar töldu sig geta náð markmiðum sínum á nokkrum dögum eða vikum en það hefur ekki gengið eftir. Á síðustu mánuðum hafa þeir farið halloka og Úkraínumenn hafa endurheimt mikið land sem Rússar höfðu hernumið.
Ungir Rússar eru ekki mjög fúsir til að fara í stríð fyrir Pútín og í september varð hann að grípa til þess ráðs að blása til herkvaðningar. Um 300.000 menn voru í framhaldinu kvaddir í herinn. Mörg hundruð þúsund menn, sumir telja allt að ein milljón, flúðu land vegna herkvaðningarinnar.
Nýjasta aðgerð Pútíns til að reyna að lappa upp á her sinn er tillaga um að lengja herskylduna í landinu úr einu ári í tvö.
Þetta sagði Flemming Splidsboel, sérfræðingur hjá Dansk Institut for Internationale Studier, í samtali við B.T. Hann sagði að almennt eigi Rússar í erfiðleikum með að fá menn til liðs við herinn og lítill baráttuvilji sé innan hersins. Hermennirnir skilji ekki af hverju það sé þörf á stríðinu og af þeim sökum skorti þá vilja til að berjast.
Fréttir hafa borist af því að varaliðshermenn hafi verið sendir á vígvöllinn eftir nokkurra vikna þjálfun og einnig hafa borist fregnir af því að menn hafi verið sendir á vígvöllinn eftir tveggja daga þjálfun.
Splidsboel sagði að í ljós hafi komið að þeir sem hafa verið kallaðir í herinn hafi skort þekkingu á hvernig vopn virki og hvernig eigi til dæmis að beita stórskotaliði og orustuþotum saman.
Hann sagði að í gegnum tíðina hafi móðurjarðarást (Rússar tala um land sitt sem móðurjörðina) átt stóran þátt í að rússneskir hermenn hafi viljað berjast fyrir land sitt en nú sé ekki lengur vilji fyrir hendi hjá þeim að fórna sér fyrir móðurjörðina.
„Rússar vilja gjarnan fara í stríð en það eru bara einhverjir aðrir sem eiga að gera það. Svo maður styður bara stríð á meðan það er eitthvað fjarlægt sem ekki snertir „mig“. Rússar glíma við þann stóra vanda að þeir geta ekki útskýrt af hverju þeir eru í stríði. Ekki í dag og ekki eftir tíu ár. Á móti vita Úkraínumenn vel af hverju þeir eru í stríði. Þeir eru að verja landið sitt,“ sagði hann.