fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Fréttir

Heimilisleg yfirheyrsla í Hafnarfirði – Faðir ríkislögreglustjóra skammaði auðmjúkan lögreglumann

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 6. nóvember 2022 19:30

Hluti þeirra vopna sem gerð voru upptæk í hryðjuverkamálinu. Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt heimildum DV var föður ríkislögreglustjóra, Guðjóni Valdimarssyni, kynnt það að hann hefði stöðu sakbornings og væri grunaður um vopnalagabrot, er lögreglumenn yfirheyrðu hann á heimili hans í Hafnarfirði þann 28. september síðastliðinn. Guðjón er ekki einn þeirra sem grunaðir eru um áform um hryðjuverk í hryðjuverkamálinu svonefnda en ljóst er að hann er grunaður um vopnalagabrot og tveir hinna grunuðu vitna um samskipti við hann.

Guðjón, sem í áratugi hefur stundað vopnasölu og vopnasöfnun, var yfirheyrður á meðan lögreglumenn framkvæmdu húsleit á heimili hans. Fram hefur komið í fjölmiðlum að á heimilinu hafi fundist á fjórða tug vopna sem hann gat ekki gert grein fyrir. Í yfirheyrslunni sagði hann þó að öll hans vopn væru skráð, samkvæmt heimildum DV.

Samkvæmt sömu heimildum var Guðjón fyrst og fremst spurður út í fullyrðingar sakborninga í hryðjuverkamálinu um tengsl þeirra og viðskipti við hann. Um er að ræða tvö meint brot Guðjóns, samkvæmt framburði sakborninganna.

Samkvæmt heimildum DV eru sakborningarnir í hryðjuverkamálinu alls fjórir. Tveir þeirra eru í gæsluvarðhaldi, þeir Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson. Samkvæmt heimildum fullyrti Sindri Snær í yfirheyrslu skömmu áður en Guðjón var yfirheyrður að Guðjón hefði lánað öðrum sakborningi í málinu, sem ekki er í gæsluvarðhaldi, Colt riffil sem líklega væri ólöglega breyttur og hálfsjálfvirkur. Guðjón mun hafa harðneitað því.

Annar sakborningur í málinu, sem ekki er í gæsluvarðhaldi, greindi frá því að hann hefði verið milligöngumaður um sölu á skotvopni til Guðjóns. Hafi Guðjón keypt þrívíddarprentað skotvopn og greitt fyrir það 400 þúsund krónur í reiðufé.

Samkvæmt heimildum DV harðneitaði Guðjón þessu líka og neitaði því raunar að kannast nokkuð við sakborningana sem vitna um þessi samskipti við hann.

Ekki í anda laganna að yfirheyra sakborning á heimili hans

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur lýst því yfir að Guðjón Valdimarsson hafi ekki notið neinnar sérmeðferðar í rannsókn lögreglu þrátt fyrir að vera faðir ríkislögreglustjóra, Sigríðar Bjarkar. Sigríður sagði sig frá rannsókn málsins  í kjölfar yfirheyrslu yfir Sindra Snæ þar sem hann vitnaði um meint samskipti Guðjóns við sakborninga og meint vopnaviðskipti hans.

Athygli vekur að yfirheyrslan yfir Guðjóni fór fram á heimili hans í Hafnarfirði. Það virðist ekki í vera í anda laga um meðferð sakamála. Í fyrstu málsgrein 62. greinar laganna segir:

„Skýrslutaka af sakborningi og vitnum skv. 61. gr. fer fram fyrir luktum dyrum. Sé þess kostur skal hún fara fram á lögreglustöð eða í öðru sérútbúnu húsnæði.“

Ekkert bendir til að neitt hafi verið því til fyrirstöðu að yfirheyra Guðjón á lögreglustöð og yfirheyrslur yfir sakborningum í hryðjuverkamálinu fóru fram á lögreglustöð. Algengasta undantekningin frá þessari reglu mun vera sú þegar yfirheyrslur eru haldnar á sjúkrahúsum yfir veikum eða slösuðum vitnum eða sakborningum. Einnig má slá því föstu að heimili Guðjóns sé ekki sérútbúið húsnæði fyrir lögregluyfirheyrslur.

Samkvæmt heimildum DV lýsti Guðjón yfir hneykslun á yfirheyrslunni og húsleitinni. Er hann sagður hafa skammast út í  lögreglumanninn sem yfirheyrði hann og minnt hann á hver skyldmenni hans (Guðjóns) væru. Hann hafi jafnframt gert því skóna að aðgerðin væri einhvers konar hefndarráðstöfun gagnvart dóttur hans, Sigríði Björk ríkislögreglstjóra. Lögreglumaðurinn sem annaðist yfirheyrsluna mun hafa verið auðmjúkur og jafnvel afsakandi í garð Guðjóns og ekki gengið hart að honum. Raunar hafi yfirheyrslan nær eingöngu snúist um að fá fram viðbrögð Guðjóns við framburði sakborninganna um þetta tvennt sem áður var nefnt: Að Guðjón hafi lánað einum þeirra Colt-riffil og að hann hafi keypt þrívíddarprentað skotvopn fyrir 400 þúsund krónur og greitt fyrir með reiðufé. Sem fyrr segir harðneitaði hann þessum fullyrðingum.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum er þetta í annað skipti sem vopnaviðskipti Guðjóns tengjast sakamáli. Árið 2018 fannst ólögleg byssa við húsleit sem var rakin til Guðjóns. Um var að ræða breyttan hálfsjálfvirkan riffil. Maðurinn keypti þennan riffil af Guðjóni og staðhæfði að riffillinn hefði verið í ólöglegri mynd þegar Guðjón seldi honum hann (sjá Vísir.is).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Enn ruglast tælenskir fjölmiðlar á löndum – Íri í haldi lögreglu vegna andláts konu en er sagður íslenskur

Enn ruglast tælenskir fjölmiðlar á löndum – Íri í haldi lögreglu vegna andláts konu en er sagður íslenskur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Katrín í Lumex svarar lektornum – „Ef hún er með einhverja hefnd og grimmd þá má hún eiga hana. Ég á enga óvini“

Katrín í Lumex svarar lektornum – „Ef hún er með einhverja hefnd og grimmd þá má hún eiga hana. Ég á enga óvini“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður