„Mér eru mikil vonbrigði að ég skuli búa í svona landi þar sem einhver lög leyfa að svona gjörningar fari fram; að fólk sé vakið upp um miðja nótt, tekið af lögreglunni út í bíl og keyrt upp á flugvöll og flogið til útlanda,“ hefur Fréttablaðið eftir henni.
Aðgerðum yfirvalda var mótmælt á Austurvelli í gær og margir hafa tjáð sig um málið.
„Ég hef talið mér trú um það að lögin í landinu séu byggð á kristnum gildum og svona aðgerðir eru ekki í þeim anda. Ég bara botna ekki því að bjóða fólki, sem hefur verið hér í stuttan eða langan tíma og er bara að leita hér skjóls og friðar í sitt hjarta, að vera tekið úr landi. Og ég vil ekki að þjóðfélagið sé byggt upp af svona hörku. Miskunn og mildi eru lykilorð,“ sagði Agnes.
„Mig skortir skilning til að botna í þessu. Við kristið fólk segjum að við hjálpum öðrum af því að við erum kristin en ekki af því að þau eru kristin,“ sagði hún einnig og biðlaði til þingmanna um breyta lögunum: „Lög landsins eru ekki skráð í einhverjar rollur frá því árið núll heldur eru búin til hér á landi og það er enginn vandi að breyta þeim.“
Hægt er að lesa nánar um málið í Fréttablaðinu í dag.