Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að rannsóknin hafi verið gerð af vísindamönnum við Háskóla Íslands og Landspítalanum og sé skýrt frá henni í nýjasta hefti Læknablaðsins.
Fram kemur að frá aldamótum hafi sú breyting orðið að hjartagjöfum hafi fjölgað í þrjár á ári á síðari hluta tímabilsins en hafi verið einn á ári á fyrri hluta þess.
Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir, sem vann að rannsókninni ásamt Atla Steini Valgarðssyni sérnámslækni í skurðlækningum í Texas, sagði að allar mælingar sýni mikinn stuðning landsmanna við líffæragjafir. Hann sagði að nýjar reglur frá 2019 um ætlað samþykki sjúklinga hafi skipt sköpum í þessum málum.
Hjartaígræðslur eru ekki gerðar hér á landi. Frá því að fyrsta aðgerðin var gerð í Bretlandi 1988 hafa 24 Íslendingar gengist undir hjartaígræðslu. Flestar þeirra hafa verið gerðar á Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg.