Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að konur, með litla menntun, geti almennt gert ráð fyrir að lifa skemur en langskólagengnar konur og fer þessi munur vaxandi og munar mörgum árum.
Rannsóknin náði til sex þúsund manns. Voru þeir flokkaðir eftir menntunarstigi en við þá flokkun kom þessi munur í ljós. Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við HÍ, vann að rannsókninni og hefur Fréttablaðið eftir honum að auðvitað vakni sú spurning af hverju þetta sé svona.
Hann sagðist telja líklegast að lífsstíll ráði þarna. „Rannsóknin leiðir í ljós að það er miklu meira um hjartasjúkdóma hjá fólki með litla menntun en hjá þeim sem hafa sótt sér meiri menntun,“ sagði hann og benti á að reikna megi með að hinir menntuðu hafi meira svigrúm í lífinu. Rannsóknin sýni fram á mikilvægi menntunar. „Það er eitthvað í henni sjálfri sem gerir fólk sterkara og hjálpar því við að viðhalda hreysti og lengja lífið fyrir vikið,“ sagði hann.