Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Páli Winkel, fangelsismálastjóra, að nýr veruleiki sé tekinn við. Nú finnist vopn reglulega í klefum og sameiginlegum rýmum fangelsa. „Fyrir nokkrum árum var þetta nánast óþekkt. Mér ber fyrst og fremst skylda til að gæta öryggis míns starfsfólks. Við höfum mjög takmarkaðan áhuga á að vopnast í fangelsunum en þurfum augljóslega að endurskoða verklag okkar. Og hugsanlega þurfum við að breyta reglum hvað viðkemur umgengni við tiltekna hópa, það er að segja þá sem eru að búa til heimagerð vopn og bera á sér,“ er haft eftir honum.
Hann sagði að þessi vopn séu oft búin til úr plexíglersbrotum, skrúfjárnum, sagarblöðum og nöglum. Hægt sé að segja að allt sé notað. „Þetta eru oftar en ekki vopn sem hægt er að bana mönnum með, hið minnsta valda alvarlegu líkamstjóni,“ sagði Páll.
Vopnum hefur ekki verið beitt gegn fangavörðum en nýlega var ráðist á fangavörð á Litla-Hrauni.
Páll sagði að til skoðunar sé að fangaverðir klæðist högg- og hnífavesti þegar þeir eru við störf. Þetta er varnarbúnaður álíka þeim sem lögreglumenn nota. Hann benti á að fjármagn þurfi til að hægt sé að kaupa slíkan búnað.