Þetta er mat breska varnarmálaráðuneytisins en það birtir daglegar færslur á Twitter um gang stríðsins.
Eftir að Rússar flúðu frá Kherson, vestan við ána Dnipro, eru Rússar ekki í eins viðkvæmri stöðu í héraðinu og áður. Ráðuneytið segir að nú sé auðveldara fyrir Rússa að verja suðvesturvarnarlínu sína meðfram austurbakka Dnipro en Svatove-héraðið sé líklega veikasti hlutinn af varnarlínu þeirra.
Svatove er í Luhansk. Rússar og Úkraínumenn hafa skipst á að hafa bæinn á valdi sínu síðan stríðið hófst. Nú eru það Rússar sem eru með hann á sínu valdi. Bærinn er nærri stóru svæði í Kharkiv sem Úkraínumenn náðu á sitt vald í september með skyndisókn.
TV2 hefur eftir Jacob Kaarsbo, sérfræðingi hjá hugveitunni Tænketanken Europa, að sókn Úkraínumanna í átt að Svatove standi nú yfir en gangi ekki hratt fyrir sig. Rússar reyni nú að koma upp varnarlínum þar. Úkraínumenn hafi náð nokkrum þorpum á svæðinu á sitt vald en hafi ekki enn náð að umkringja bæinn.
Hann sagði það hægja á sókn Úkraínumanna að Rússar hafi sent mikinn fjölda nýliða til Svatove. Því geti Úkraínumenn ekki sótt fram nema að eiga á hættu að verða fyrir miklu mannfalli.