Samkvæmt tilkynningu frá Alvogen hefur náðst sátt við Halldór Kristmannsson í máli sem Alvogen höfðaði gegn honum. Málið má rekja til bréfs sem Halldór sendi stjórn Alvogen í janúar á síðasta ári þar sem mátti finna fjölda ásakana um starfshætti Róberts Wessmans.
Í tilkynningu frá Alvogen segir að af stað hafi farið óháð rannsókn sérfræðinga og að henni lokinni hafi Alvogen stefnt Halldóri fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og átti málflutningur að fara fram nú á haustmánuðum. Aðilar hafi þó náð sáttum í málinu og ætlar Alvogen að falla frá málsókninni. Halldór mun þá loka heimasíðu sinni og hefur lýst því yfir að hann hafi ekki stöðu uppljóstrara í neinni lögsögu. Hann hafi jafnframt lýst því yfir að hann uni þeirri niðurstöðu stjórnar Alvogen að lýsa yfir traust til Róberts í kjölfar rannsóknarinnar.
Halldór steig fram vorið 2021 með alvarlegar ásakanir um hegðun Róberts Wessmans, forstjóra Alvogen og opnaði vefsíðuna alvowhistleblower.com þar sem hann titlaði sig uppljóstrara. Fólust ásakanir hans á hendur Róberti meðal annars í því að Róbert hafi gerst sekur um líkamsárásir og ósæmilega hegðun undir áhrifum áfengis. Sagði hann marga hafa kvartað undan ofstopa Róberts í garð undirmanna og fyrrverandi starfsmanna og að Róbert hafi haft frammi fólskulegar hótanir í garð fyrrverandi starfsmanna Actavis svo þeir hefðu ástæðu til að óttast um öryggi sitt og fjölskyldna sinna. Halldór sagði Róbert einnig hafa skipulagt rógsherferðir í fjölmiðlum gegn ýmsu fólki sem hann hafi borið kala til, meðal annars keppinauta í viðskiptalífinu og opinberra embættismanna.
Sjá einnig: Ævintýralegar ásakanir gegn Róberti Wessman – Þetta eru „óvildarmennirnir“ sem hann á að hafa beitt sér gegn
Sjá einnig: Róbert Wessman borinn þungum sökum – Sagður hafa kýlt starfsmann og hótað fyrrum starfsmönnum