Skömmu fyrir miðnætti var tilkynnt um líkamsárás á veitingastað í Breiðholti. Þar hafði maður í annarlegu ástandi ráðist á öryggisvörð sem hafði verið kallaður á vettvang til að vísa honum út. Maðurinn brást illa við því og réðst á öryggisvörðinn. Árásarmaðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Í Hlíðahverfi hafði lögreglan afskipti af manni einum á níunda tímanum í gærkvöldi. Hann var í annarlegu ástandi og var sagður hafa brotið rúðu. Hann neitaði því í fyrstu en viðurkenndi síðan að hafa kastað einum steini en sagðist ekki muna hvort eitthvað hefði brotnað.
Á tíunda tímanum vildi maður, sem var í annarlegu ástandi, ekki yfirgefa hótel í Hlíðahverfi. Hann fór ekki að fyrirmælum lögreglu og var handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Í Miðborginni var tilkynnt um innbrot í geymslur fjölbýlishúss. Þar hafði verið farið inn um glugga og reiðhjóli og fleiri munum stolið.
Skömmu fyrir miðnætti var tilkynnt um þjófnað á farangri ferðamanns á hóteli í Hlíðahverfi. Tveimur ferðatöskum var stolið frá honum. Í þeim voru meðal annars vegabréf og fatnaður.
Afskipti voru höfð af tveimur mönnum sem eru grunaðir um vörslu fíkniefna og einum sem er grunaður um vopnalagabrot.
Einn ökumaður var handtekinn í nótt grunaður um að vera undir áhrifum áfengis.