Segir í tilkynningunni að þrír menn um tvítugt hafi verið fluttir á bráðadeild. Allir voru þeir með stungusár.
Segir lögreglan að hópur manna hafi ráðist inn á skemmtistaðinn og á þremenningana sem voru þar í einu herbergi. Árásarmennirnir voru dökkklæddir og með grímur. Þeir yfirgáfu staðinn um leið og árásin var yfirstaðin.
Talið er að þeir hafi verið innandyra í mjög skamman tíma.
Leit hófst strax og hafa tugir lögreglumanna komið að rannsókn málsins í nótt.
Nokkrar húsleitir hafa verið framkvæmdar og fjórir hafa verið handteknir.
„Rannsókn málsins er í forgangi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en við aðgerðirnar í gærkvöld og nótt hefur hún notið aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra. Rannsóknin beinist m.a. að því hvort árásin tengist uppgjöri eða hefndaraðgerðum, en á þessu stigi er of snemmt að fullyrða um slíkt. Svo virðist sem málsaðilar séu flestir Íslendingar, en það á eftir að skýrast frekar. Lögreglan vopnaðist vegna aðgerðanna í gærkvöld og nótt, en um mjög alvarlega árás er að ræða,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
Hér fyrir neðan er frétt DV frá því fyrr í morgun um málið.
Birgitta skýrir frá atburðunum á Bankastræti Club í gærkvöldi – Þrír alvarlega slasaðir