Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Hans Kristian Roeschen í 15 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir vörslu á barnaklámi.
Í dómnum, sem birtist í dag á heimasíðu dómstólsins, kemur fram að í desember 2019 hafi lögregla gert upptækar tvær fartölvur og flakkara í eigu Hans Kristian á heimili hans í Reykjavík þar sem fundust 494 kvikmyndir, 32.886 ljósmyndir og 98 teiknimyndir sem sýndu börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt.
Hans Kristian, sem er 45 ára gamall, játaði brot sín skýlaust við yfirheyrslur en í dómnum kemur fram að hann hefur ekki gerst áður brotlegur við lög.
Þá hefur hann, síðan málið kom upp, leitað sér aðstoðar sálfræðinga bæði hér á landi og erlendis og farið í áfengismeðferð. Í dómsorði kemur fram að hann sinni enn meðferðarvinnu og sæki viðtöl hjá fagaðilum samkvæmt framlögðu vottorði.
Þá var metið til refsilækkunar að rannsókn málsins dróst um rúm tvö og hálft ár af hálfu lögreglu.
Auk hins skilorðsbunda dóms þarf Hans Kristian að greiða verjanda sínum 900 þúsund krónur í málsvarnarlaun.