Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW) segir að Prigozhin haldi ótrauður áfram að styrkja stöðu sína í Rússlandi og auka völd sín.
ISW hefur margoft sagt að markmið Prigozhin geti verið að komast til pólitískra metorða. Í nýlegri stöðuuppfærslu hugveitunnar um gang stríðsins í Úkraínu segir hún að nú sé Prigozhin að íhuga að stofna stjórnmálaflokk.
Hugveitan vitnar í rússneska stjórnarandstöðufjölmiðilinn Meduza sem segir að Prigozhin hafi í hyggju að stofna íhaldshreyfingu sem geti síðan orðið að stjórnmálaflokki.
Hann er sagður hafa hrint upplýsingaherferð af stað þar sem hann gagnrýnir „spillta elítuna“ en þó án þess að gagnrýna Pútín.
ISW telur að Prigozhin reyni að auka áhrif sín hjá Pútín með því að gagnrýna þann hluta elítunnar sem þykir ekki sýna Pútín næga hollustu.
Prigozhin hefur sjálfur vísað því á bug að hann hafi pólitískan metnað.