Segir ISW að Prigozhin, sem á málaliðafyrirtækið Wagner, sé að styrkja stöðu sína sem sjálfstæður stalínskur stríðsherra í Rússlandi. Hann verði sífellt meira áberandi í samfélagi þjóðernissinna sem styðja stríðsreksturinn í Úkraínu.
„Prigozhin stendur fyrir aðgerðum sem njóta vinsælda hjá kjósendum, sem hafa áhuga á hugmyndafræðinni um yfirburði Rússa, á grimmdarlegum sovéskum aflsmunum og sem finnst spillingin í Kreml óviðeigandi en hana hefur Vladímír Pútín, forseti, notað sem pólitískt afl allan valdatíma sinn,“ segir í greiningunni.
Lengi hefur verið vitað að Prigozhin stæði á bak við Wagner, sem tekur þátt í stríðinu í Úkraínu, en það var ekki fyrr en nýlega sem hann viðurkenndi það opinberlega.
ISW segir að Prigozhin notfæri sér þátttöku Wagner í stríðinu til að styrkja stöðu sína í Rússlandi. Vísar ISW meðal annars til þess að hann hafi beðið saksóknara leyniþjónustunnar FSB um að rannsaka hvort Alexander Beglov, héraðsstjóri í St Pétursborg, hafi gerst sekur um föðurlandssvik. Ástæðan fyrir þessari beiðni hans er að embættismenn í borginni höfnuðu umsókn Prigozhin um byggingarleyfi fyrir Wagner í borginni.
Hann hefur einnig hneykslast opinberlega á rússneska skrifræðinu en það gerði hann þegar hann var spurður hvort hersveitir hans myndu stunda æfingar á æfingasvæðum hersins. Þetta gerði hann líklega til sýna að hersveitir hans séu sjálfstæðar og heyri ekki undir ríkisvaldið.
Segir ISW að hegðun hans sé fordæmalaus í stjórnartíð Pútíns.