„Rússnesk borg, höfuðborgin í einu af rússnesku héruðunum, á stærð við Belgorod, Kursk, Donetsk eða Simferopol, hefur verið gefin upp á bátinn. Ef þér er alveg saman, ert þú ekki Rússi.“
Þetta sagði Alexander Dugin, sem oft hefur verið kallaður „Heili Pútíns“, í ræðu sem var sjónvarpað á Tsargrad sjónvarpsstöðinni en hún er málpípa ráðamanna í Kreml.
„Rússar bíta nú saman tönnum af sársauka, þeir gráta og þjást eins mikið og ef maður hefði rifið hjartað úr þeim, drepið börn þeirra, bræður, mæður og konur fyrir framan þá. Ef þú finnur ekki til sársauka núna, þá ertu ekkert,“ bætti hann við og vísaði þar til brotthvarfs rússneska hersins frá Kherson.
Hann er á því að Pútín beri ábyrgð á þeirri niðurlægingu sem það var að herinn flúði frá Kherson. „Ríkisstjórnin ber ábyrgð á þessu. Hver er annars tilgangurinn með einveldi, og það er einmitt það sem við höfum? Við veitum einræðisherranum öll völd, gegn því að hann bjargi okkur öllum, fólkinu, ríkinu, fólki á krítískum augnablikum. Ef hann safnar að sér fúlmennum eða gefur skít í félagslegt réttlæti, þá er það óþægilegt en hann bjargar okkur. En hvað ef hann gerir það ekki?“ spurði hann og svaraði spurningunni sjálfur: „Einræði er ekki ókeypis. Full völd þegar árangur næst en um leið full ábyrgð þegar illa fer.“
Danska ríkisútvarpið segir að eftir því sem sérfræðingar segja þá hafi ekki verið mikið sagt um flóttann frá Kherson í rússnesku sjónvarpi og það sé því mjög athyglisvert að það sé Dugin sem gagnrýni flóttann.
Það eru aðeins sex vikur síðan Pútín tilkynnti um innlimun Kherson og fleiri svæða í Rússland. Það gerði hann á grunni sviðsettra atkvæðagreiðslna í héruðunum. Þessu var fagnað með stórbrotnum hátíðarhöldum í Moskvu. En síðan hefur sigið enn frekar á ógæfuhliðina hjá Rússum og þeir hafa misst sífellt meira af „innlimuðu“ svæðunum í hendur Úkraínumanna.
Dugin sagðist ekki kenna Sergei Surovikin, yfirmanni rússneska heraflans í Úkraínu, um flóttann frá Kherson. „Kherson er gefin algjörlega upp á bátinn. Ég gagnrýni ekki Surovikin. Hann er ekki stjórnmálamaður, hann sér um tæknilega hlið víglínunnar. Þetta er ekki honum að kenna, þið vitið hver ber ábyrgðina,“ sagði hann.