Í Árbæjarhverfi var ofurölvi maður handtekinn á níunda tímanum. Hann svaf ölvunarsvefni utandyra og var með áverka í andliti. Sjúkraflutningsmenn könnuðu ástand mannsins og síðan var hann vistaður í fangageymslu.
Klukkan 21 var tilkynnt um ofurölvi mann sem var til vandræða á bensínstöð í Árbæjarhverfi. Hann hafði öskrað og slegið í afgreiðsluborðið með þeim afleiðingum að það brotnaði upp úr því. Maðurinn fór síðan af vettvangi en sneri aftur skömmu fyrir miðnætti og veittist að starfsmanni. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Við leit á honum fundust munir sem eru taldir vera þýfi.
Þrír ökumenn voru handteknir í gærkvöldi og nótt grunaðir um að vera undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að aka á móti rauðu ljósi.
Ofurölvi maður var handtekinn á veitingastað í Hlíðahverfi á áttunda tímanum. Hann gat ekki greitt fyrir veitingar sem hann hafði fengið og svaf ölvunarsvefni þegar lögreglan kom á vettvang. Hann var vistaður í fangageymslu.
Tilkynnt var um innbrot í fyrirtæki í Kópavogi á tíunda tímanum í gærkvöldi. 3.000 krónum var stolið.