Hersir Aron Ólafsson, aðstoðarmaður Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra, vísir því á bug að hann hafi gert kröfu um að Bjarni Benediktsson myndi mæta einn í viðtal í Kastljós í kvöld. Hann segir að flestir sem fylgist með fréttum sjái að Bjarni þori að mæta stjórnarandstöðunni hvenær sem er.
„Líklega er það heiður fyrir manninn bak við tjöldin að fá shoutout í Kastljósinu, og það oftar en einu sinni. Tilefnið var hins vegar svolítið skrýtið í kvöld. Þáttastjórnandinn Sigríður Dögg fullyrti þar að ég hefði sett skilyrði um að Bjarni Benediktsson yrði einn í viðtalssetti kvöldsins. Uppleggið hefði upprunalega verið að hann færi í viðtal með stjórnarandstæðingum, en ég síðan gert kröfu um annað. Þetta er rangt,“ segir Hersir.
Hersir segir að hann og Sigríður Dögg hafi verið í reglulegum samskiptum í dag, frá því að Bjarni samþykkti beiðni hennar um að mæta í Kastljós.
„Síðdegis töluðum við saman um fyrirkomulag þáttarins, sem yrði þannig að Bjarni kæmi í settið til Sigríðar Daggar og svaraði spurningum hennar um skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þá höfðum við þegar verið í nokkrum samskiptum, meðal annars í því skyni að ég reyndi að koma RÚV í samband við Bankasýslu ríkisins – en hún vildi líka fá fulltrúa hennar í þáttinn,“ segir Hersir.
Hann segist hafa fengið símtal frá Sigríði þegar nær dró þættinum um breytt fyrirkomulag, að Bjarni myndi mæta stjórnarandstæðing.
„Ég benti á að það væri annað en ákveðið hefði verið skömmu áður og eðlilegt að fyrirkomulagið stæði óbreytt. Það væri ekki sérstakt hagsmunamál fyrir okkur að mæta í þáttinn yfir höfuð. Við hefðum þegar verið í sjónvarpsviðtali við kvöldfréttir RÚV, ásamt fjölda annarra miðla, og ættum auk þess boð í fréttasett RÚV í beinni. Úr varð hins vegar að halda óbreyttu fyrirkomulagi,“ segir Hersir.
Í kjölfarið hafi Kristrún Frostadóttir birt færslu á Facebook um um að Bjarni þorði ekki að mæta henni í Kastljósi.
„Flestir sem fylgjast með fréttum og þingumræðum sjá eflaust að Bjarni hefur „þorað“ að mæta stjórnarandstöðunni hvar sem þess þarf, hvort sem er í þingsal, sjónvarpssal eða sölum þingnefnda. Mér skilst að hann ætli meira að segja að tala í sig kjark og vera með stjórnarandstöðunni í sérstakri umræðu á Alþingi um skýrslu Ríkisendurskoðunar allan daginn á morgun,“ segir Hersir.