Stúlka um tvítugt hefur verið ákærð fyrir ógnanir og ofbeldi gegn stjúpföður sínum og móður, auk bíræfinna fjársvika og þjófnaðar úr búningsklefa líkamsræktarstöðvar.
Réttað verður yfir stúlkunni á næstunni við Héraðsdóm Reykjavíkur en ákærandi er Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu. Þinghald í málinu verður lokað vegna fjölskyldutengsla.
DV hefur ákæru í málinu undir höndum. Stúlkan er sökuð um ofbeldisbrot utandyra hjá fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu þann 21. maí 2021. Er hún sökuð um að hafa veist að fimmtugum stjúpföður sínum með ofbeldi, slegið hann ítrekað í vinstri handlegg og kastað steypuhellu í vinstri hönd hans. Hlaut maðurinn nokkra áverka af árásinni.
Stúlkan er einnig ákærð fyrir að hafa hótað móður sinni og stjúpföður lífláti sem og að kveikja í íbúðinni þeirra.
Stúlkan er ennfremur sökuð um þjófnað og fjársvik í mars árið 2020. Þá er hún sögð hafa stolið farsíma af manni og farið inn á aðgang að netbanka hans. Þar hafi hún millifært 688.500 krónur yfir á sinn reikning af tveimur reikningum hans.
Stúlkan er ennfremur sökuð um að hafa stolið bíllyklum, farsíma og peningaveski úr búningsklefa í líkamsræktarstöð og tekið bíl ófrjálsri hendi í kjölfarið. Keyrði hún bílinnn um götur höfuðborgarsvæðisins, segir í ákærunni.
Krafist er að hin ákærða verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Gerð er krafa um að stúlkan greiði stjúpföður sínum 850.000 krónur í miskabætur. Einnig er hún krafin um greiðslu lögmannskostnaðar hans.