Óhætt er að segja að Rússar hafi sett leikþátt á svið í gær og var honum sjónvarpað. Allt til að reyna að sannfæra almenning um að stríðsreksturinn gangi ágætlega þrátt fyrir að nú eigi að hörfa frá Kherson. Shoigu og Surovikin ræddu saman í útsendingunni og sagði Surovikin yfirmanni sínum að stríðið gengi vel á ýmsum vígstöðvum en að réttast væri að hörfa frá Kherson. Í kjölfarið gaf Shoigu honum fyrirmæli um að hörfa frá Kherson.
Flemmings Splidsboel, sérfræðingur í málefnum Rússlands hjá dönsku hugveitunni Dansk Institut for Internationale Studier sagði í samtali við Ekstra Bladet að Rússar hafi ekki fyrr viðurkennt opinberlega hversu illa stríðsrekstur þeirra gengur. „Þetta er stór ósigur og þeir verða að sætta sig við það,“ sagði hann.
Hann sagði að samtal Shoigu og Surovikin í sjónvarpi í gær hafi verið sorgleg tilraun til að reyna að láta hlutina líta þokkalega út. „Þeir standa með bakið upp að veggnum,“ sagði hann og bætti við að þrátt fyrir að þeir hafi reynt að láta hlutina líta vel út þá sjái margir Rússar í gegnum þetta.
Hann benti á að Surovikin, sem er þekktur hrotti sem vílar ekki fyrir sér að drepa óbreytta borgara, hafi verið settur yfir rússneska innrásarherinn fyrir mánuði síðan. Ekki sé hægt að sjá að hann geti skreytt ferilskrá sína með mörgum fjöðrum eftir þennan mánuð. Fyrir nokkrum vikum hafi hann sagt að það mikilvægasta fyrir Rússa sé að hugsa um velferð hermanna sinna. Það er einmitt ástæðan sem hann og Shoigu nefndu í gær sem ástæðuna fyrir brottflutningnum frá Kherson.
Það virðist heldur ekki vera þannig að rússneskir herforingjar hafi miklar áhyggjur af velferð óbreyttra hermanna. Það er hægt að lesa meira um það í fréttinni hér fyrir neðan.