Einn af þeim sem lifðu af skýrði frá þessu í viðtali við rússneska netmiðilinn Verstka. Fram kemur að 570 hermenn hafi verið í herdeildinni en eftir fjögurra daga linnulaus skothríð Úkraínumanna voru aðeins nokkrir eftir. Verstka segir að ekki sé hægt að segja til með fullri vissu hversu margir lifðu af en heimildarmenn telji það vera 30 til 40.
„Það var mikið af látnum hermönnum, þeir lágu um allt. Handleggir og fætur höfðu rifnað af. Skóflurnar, sem við notuðum til að grafa skotgrafir, notuðum við líka til að grafa líkin upp,“ sagði Nikolai Voronin, einn þeirra sem lifðu af, að sögn The Guardian.
The Guardian ræddi einnig við annan hermann, Aleksei Agafonov sem sagði að herdeildin hafi komið til Luhansk 1. nóvember og hafi hermennirnir strax fengið skóflur og verið sendir í skotgrafir á svæði þar sem þeir voru auðveld bráð fyrir Úkraínumenn. „Fyrst flaug úkraínskur dróni yfir okkur og síðan byrjaði stórskotaliðið þeirra að láta skotum rigna yfir okkur klukkustundum saman. Það var ekkert hlé,“ sagði hann og bætti við að foringjar herdeildarinnar hafi látið sig hverfa um leið og skothríð Úkraínumanna hófst.
Hann sagðist telja að um 130 af 570 hermönnum hafi lifað af.
Það hefur vakið reiði í Rússlandi að reynslulausir hermenn séu sendir beint í fremstu víglínu. „Hópur herkvaddra hermanna var skilinn eftir án fjarskiptatækja, án nauðsynlegra vopna, án lyfja, án stuðnings stórskotaliðs. Kisturnar eru strax farnar að koma. Þið lofuðuð að þeir myndu fá þjálfun, að þeir yrðu ekki sendir í fremstu víglínu innan viku,“ skrifaði rússneska fréttakonan Anastasia Kashevarova, sem styður stríðsreksturinn, á Telegram.
Sami boðskapur er á myndbandsupptöku frá hópi kvenna sem eiga menn sem voru í umræddri herdeild. „Á fyrsta deginum voru nýinnkallaðir menn sendir í fremstu víglínu. Síðan yfirgáfu foringjarnir vígvöllinn og flúðu,“ segir Inna Voronina í myndbandinu að sögn The Guardian. Eiginmanns hennar er saknað á vígvellinum.