Ef svara við þessu er leitað hjá bandarísku hugveitunni Institute for the Study of War (ISW) er annar möguleikinn líklegri en hinn.
„Forseti Rússland, Vladímír Pútín, mun langlíklegast reyna að halda hefðbundnum hernaðaraðgerðum áfram í Úkraínu til að halda herteknu svæðunum, ná nýjum landsvæðum á sitt vald og vinna að því að skapa aðstæður fyrir hruni stuðnings vestrænna ríkja við Úkraínu en hann reiknar líklega með að það gerist í vetur,“ segir í greiningu hugveitunnar.
Einnig segir að Pútín hafi líklega ekki gefið upp vonina um að ná öllum þeim markmiðum, sem hann setti sér með innrásinni í Úkraínu, með hefðbundnum hernaðaraðgerðum. Samtímis reyni hann að brjóta niður baráttuvilja Úkraínumanna og vilja Vesturlanda til að styðja Úkraínu.
ISW segir að ólíklegt sé að Pútín muni grípa til þess ráðs að beita vígvallarkjarnorkuvopnum en þó geti komið til þess ef rússneski herinn hrynur algjörlega, sem myndi gefa úkraínska hernum tækifæri til að sækja fram af krafti.
Hugveitan segir „hugsanlegt“ en „ósennilegt“ að Pútín muni grípa til þess að beita kjarnorkuvopnum. Mjög ólíklegt sé að hann muni reyna að efna til beinna hernaðarátaka við NATO. Hann muni þó mjög líklega halda áfram að ýja að möguleikanum á að Rússar beiti kjarnorkuvopnum og árás á NATO. Þetta sé hluti af tilraunum hans til að brjóta niður vilja Vesturlanda til að styðja Úkraínu.