Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra, tilkynnti þetta á fréttamannafundi í gær. Hann sagði að framvegis verði aukin gæsla við innviði tengda olíu- og gasvinnslu Norðmanna. Einnig verður aukin áhersla lögð á eftirlit á þeim stóru hafsvæðum sem heyra undir Noreg. Sérstök áhersla verður á Norðursjó þar sem Norðmenn stunda mikla olíu- og gasvinnslu.
Støre sagði stöðuna alvarlega: „Staða öryggispólítískra mála hefur ekki verið alvarlegri áratugum saman,“ sagði hann að sögn Aftenposten.
Á síðustu vikum hafa norskir fjölmiðlar fjallað mikið um aukin umsvif rússneska hersins nærri norsku landamærunum en landamæri ríkjanna eru um 200 km að lengd. Að auki hafa rússneskir ríkisborgarar verið handteknir með dróna í bílum sínum, flugvöllum hefur verið lokað og gæsla hefur verið aukin við olíu- og gasvinnsluborpalla. Rússneskur gestafræðimaður var nýlega handtekinn, grunaður um njósnir. Fram hefur komið í fjölmiðlum að hann sé útsendari rússnesku leyniþjónustunnar.
Støre sagði að allt þetta geri að verkum að Norðmenn þurfi að vera enn betur á verði. Hann sagði að þessi aukna spenna geri að verkum að Norðmenn verði frekar fyrir hótunum, njósnum og reynt sé að hafa áhrif á samfélagið. Það sé í raun nauðsynlegt fyrir öll aðildarríki NATO að vera á varðbergi gagnvart þessu.
Hann sagði enga ástæðu til að halda að Rússar hafi í hyggju að ráðast á Noreg en það verði samt sem áður að sýna árvekni.