Alexander Svanur Guðmundsson, 28 ára gamall maður, var sakfelldur í Héraðsdómi Norðurlands eystra, þann 3. nóvember síðastliðinn, fyrir líkamsárás á föður sinn. Auk þess var hann sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot.
Árásin átti sér stað í Hafnarfirði þann 29. ágúst árið 2020 þar sem Alexander Svanur réðst inn á heimili foreldra sinna og sló föður sinn 5 til 6 sinnum í andlitið með hnefanum sem hann hafði útbúið með hnúajárni. Faðirinn hlaut töluverða áverka af árásinni.
Alexander Svanur var að auki sakfelldur fyrir vörslu fíkniefna, m.a. kókaín og amfetamín, og umferðarlagabrot.
Alexander Svanur hefur rætt um fíknivanda sinn opinberlega en tæpu ári eftir árásina í Hafnarfirði var hann í viðtali í hlaðvarpi samtakanna Það er von. Hafði hann þá verið frá neyslu í nokkra mánuði.
Í grein Smartlands upp úr hlaðvarpinu segir meðal annars:
„Alexander Svanur byrjaði að fikta við neyslu kannabisefna í 10. bekk. Eftir langa og erfiða neyslusögu er hann búinn að vera án hugbreytandi efna í fjóra og hálfan mánuð. Í hlaðvarpsþættinum Það er von segir Alexander að þrátt fyrir stuttan edrútíma hafi hann lært margt, bæði um sjálfan sig og sjúkdóminn.
Æska Alexanders var lituð af sorg og erfiðum tilfinningum. Bróðir hans lést og faðir þeirra lenti í alvarlegu umferðarslysi þar sem ökumaður undir áhrifum lyfja keyrði hann niður, þar sem hann var á mótorhjóli.“
Alexander Svanur játaði brot sín fyrir dómi og var dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 350 þúsund króna sektar í ríkissjóð. Einnig var hann sviptur örkuréttindum í níu mánuði.