Í gærkvöldi var tilkynnt um tvo menn sem sátu við borð á veitingastað í Miðborginni. Hafði annar þeirra tekið upp stóran hníf og stungið honum í borðið sem hann sat við. Sagði tilkynnandi að þetta hafi hrætt viðskiptavini sem hafi yfirgefið staðinn. Lögreglan handtók viðkomandi og lagði hald á hnífinn.
Ekið var á hjólreiðamann í Miðborginni. Hann var fluttur á bráðamóttöku með sjúkrabifreið.
Lögreglumenn höfðu afskipti af manni sem reyndist vera með töluvert af fíkniefnum í fórum sínum. Talið er að efnin hafi verið ætluð til sölu. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Grunur leikur á að hann dvelji ólöglega hér á landi.
Í Háaleitis- og Bústaðahverfi varð umferðaróhapp og stakk annar ökumaðurinn af frá vettvangi. Lögreglan handtók hann skammt frá. Hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis. Hann var vistaður í fangageymslu.
Brotist var inn í bifreið í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Ökumaðurinn hafði brugðið sér frá bifreiðinni í skamma stund. Þegar hann kom til baka var búið að stela verðmætum sem voru sýnileg í bifreiðinni.
Þrír ökumenn voru handteknir, grunaðir um að vera undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Einn þeirra hafði ekið á ljósastaur. Einn reyndist vera sviptur ökuréttindum og annar var með meint fíkniefni í fórum sínum.