„Sko, ef ég fengi að ráða þá myndi ég reka ykkur alla saman út hérna bara eins og skot, en ég veit að það verður verra sem kemur þá á eftir, þess vegna umber ég ykkur,“ sagði Guðjón Valdimarsson, byssusali og byssusafnari, og faðir Sigríðar Bjarkar ríkislögreglustjóra, við lögreglumann sem yfirheyrði hann á heimili hans þann 28. september, á meðan fjölmargir lögreglumenn framkvæmdu húsleit á heimili Guðjóns, í leit að ólöglegum vopnum.
Guðjón ber stöðu sakbornings og er grunaður um vopnalagabrot. Framburðir sakborninga í hryðjuverkamálinu svonefnda urðu til þess að grunur féll á Guðjón. Hann er hins vegar ekki grunaður um áform um hryðjuverk líkt og sakborningarnir í hryðjuverkamálinu. Í yfirheyrslunni voru bornar undir Guðjón fullyrðingar um tvenn meint vopnlagabrot. Annars vegar var hann sagður hafa lánað einum sakborningi í málinu (þeir eru fjórir, þar af sitja tveir í gæsluvarðhaldi) Colt riffil. Hins vegar er hann grunaður um að hafa keypt af öðrum sakborningi þrívíddarprentað skotvopn og greitt fyrir það 400 þúsund krónur í reiðufé.
Í yfirheyrslunni harðneitaði Guðjón þessum áburði og sagðist aldrei hafa hitt sakborninganna og ekkert þekkja til þeirra.
Guðjón var viðskotaillur í yfirheyrslunni en lögreglumaðurinn sem yfirheyrði hann var mjög auðmjúkur og sótti ekki hart að honum. Hafði yfirheyrslan það eina markmið, að virtist, að fá fram viðbrögð Guðjóns við framburði mannanna sem vitnað hafa um vopnaviðskipti við hann. Sérkennilegt er að Guðjón skuli hafa verið yfirheyrður á heimili sínu og er það ekki í anda laga um meðferð sakamála þar sem kveðið er á um að yfirheyrsla skuli fara fram á lögreglustöð eða í sérútbúnu húsnæði, sé þess kostur. Undantekningar eru helst þær ef vitni eða sakborningur liggur á spítala, þá fer yfirheyrsla fram þar.
Guðjón harðneitaði þessum framburði, sagði öll sín vopn skráð, sagðist aldrei hafa framið vopnalagabrot og ekki hafa lánað skotvopn í tíu ár. Komið hefur fram í fréttum að við húsleitina fundust á fjórða tug vopna sem hann gat ekki gert grein fyrir.
Guðjón sagðist vera tilbúinn að gangast undir lygamælispróf, hann sagði orðrétt:
„Ef þú vilt þá skal ég fara í þarna ef þið hafið einhvers konar þarna lyga, lygapróf þá er það bara sjálfsagt. Ég hef aldrei gert þetta.“
Lögreglumaðurinn sagði að lygamælispróf væri óþarfi og minnti Guðjón á að ekki væri verið að ásaka hann um neitt, bara bera þessar fullyrðingar undir hann, þ.e. framburð sakborninganna. Guðjón sagði framburð þeirra um sig vera lygi.
Guðjón var mjög heykslaður á lögregluaðgerðunum og sagði meðal annars:
„Þetta, veistu það, ég bara sko eftir því sem lengra líður á þetta samtal okkar hérna og allt þetta verklag hérna, mér finnst bara eins og ég sé í Austur Þýskalandi hjá Stasi sko. Hvar er minn réttur, jú þið eruð búnir að benda mér á að fá mér lögmann en hvar, á hverju byggið þið þetta, einhverjum orðum einhverra manna. Hvað, hvaða menn eru þetta einhverjir glæpamenn sem eru að taka eða hvað hef ég brotið af mér til þess að verðskulda svona athygli?“
Hafi Guðjóni verið misboðið þegar borinn var undir hann framburður þess efnis að hann hefði lánað Colt rifill komst hann þá fyrst í uppnám þegar undir hann voru borin þau ummæli að hann hefði keypt þvívíddarprentað skotvopn fyrir 400 þúsund krónur. Guðjón sagði:
„Hversu gáfulegt heldur þú að það sé fyrir mig sem að, vopnasala og faðir ríkislögreglustjóra, að kaupa þrívíddarprent, þrívíddarprentaða byssu og hafa hana hér eða hvar sem væri sem hún gæti fundist á mínum vegum. Hversu gáfulegt fyndist þér það vera? Þið eruð raunverulega að segja að ég sé fáviti. Það bara það hlýtur að vera, vegna þess að það dytti engum heilvita manni í huga að gera þetta.“
Guðjón sagði ennfremur:
„Ef þið bara hefðuð skoðað hver skyldmenni mín eru, þá hefðuð þið ekki komið hingað, nema það sé bara einhver hefndarráðstöfun gagnvart dóttur minni. Það er það eina sem ég get séð úr þessu, því ég hef ekkert að fela og þið hafið fengið að skoða allt hér. Þið eruð reyndar ekki búnir að leita á mér.“
Guðjón er afar sár og miður sín yfir áburðinum. Hann reiðist hvað eftir annað við lögreglumanninn, sér síðan að sér og biður hann afsökunar. Hann segist upplifa sig mjög varnarlausan gegn einhverjum framburði manna sem hann þekki ekki. Hann sagðist ekkert hafa að fela og hvatti lögreglumennina til að gera tölvuna sína upptæka:
„Bara takið þið helvítis tölvuna, ég, ég er ekki einu sinni að skoða klám. Þið megið það bara mín vegna, ég vil bara fá hana fljótt aftur, þið verðið bara að afrita hana þannig að ég fái hana aftur, ég nota hana.“
Nokkru síðar sagðist Guðjón þurfa að fá sér að drekka, þar sem hann væri orðinn þurr í kverkunum vegna þess að hann væri skelkaður af ásökununum sem á hann voru bornar:
„Komdu fram á bað með mér, ég ætla að fá mér vatn vegna þess að ég er bara orðinn sko, ég held að sé bara svona skelkaður að ég er bara þurr í kverkunum.“
Í lok yfirheyrslunnar sagðist Guðjón mögulega geta borið kennsl á mennina sem báru á hann vopnalagabrot ef hann fengi að sjá myndir af þeim. Nöfn þeirra kannaðist hann hins vegar ekki við. Hvað eftir annað í yfirheyrslunni sagði hann að ásakanirnar væru fráleitar, hann hefði engin vopn lánað og hann hefði ekki keypt þrívíddarprentað vopn.