Brottvísanirnar á hælisleitendum voru til umræðu í útvarpsþættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun en segja má að allt hafi verið á suðupunkti í þættinum eftir að Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, tók til máls. Ásamt henni voru Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, og Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, gestir í þættinum.
„Þessi mál auðvitað vekja upp miklar tilfinningar, eðlilega. Ég er ekki viss um að menn geti fullyrt að það sé verið að senda fólk algjörlega á götuna,“ sagði Sigríður og Sigmar var þá fljótur að skjóta inn í: „Þetta fólk er þar núna.“
Sigríður sagði þá að hælisleitendurnir sem vísað er úr Íslandi fari í venjulegt velferðarkerfi í Grikklandi. Hún bætti því svo við að hvorki færi ver né betur um það þar en í kjölfarið tóku bæði Helga Vala og Sigmar til máls. „Jú það fer verr um það þar,“ sagði Helga Vala.
„Þetta er óumdeilt Sigríður, hælisleitendur og þau sem eru komin með vernd í Grikklandi, þó þau hafi réttindi í orði þá eru girðingarnar inni í kerfinu þannig að þau geti ekki sótt þessi réttindi sín. Afleiðingin er sú að þetta fólk er oft bara í tjöldum í almenningsgörðum eða jafnvel bara á götunni og við eigum ekki að senda fólk í þessar aðstæður,“ sagði Sigmar.
Sigríður spurði Sigmar hvort það væri ekki þá „bara tilefni til þess að hjálpa Grikkjum og berjast fyrir því að þeir taki til í sínum ranni“, það hafi verið gert áður. „Ég þekki það nú bara frá því þegar ég sótti fundi með öllum dómsmálaráðherrum og innanríkisráðherrum Evrópusambandsins,“ sagði hún svo.
Sigmar svaraði Sigríði og spurði hana hvað ætti að gerast í millitíðinni. „Eigum við í millitíðinni að senda fólk í þessar ömurlegu aðstæður? Auðvitað ekki.“
„Já, bíddu en hvað blasir við þessu fólki hér á landi Sigmar?“ spurði Sigríður hann til baka. „Það liggur fyrir að hér er ekki til húsnæði fyrir þetta fólk, hér er búið að rigga upp einhverju mygluðu húsnæði og einhverjum kömrum fyrir þetta fólk. Það blasir við að hingað streyma mörg þúsund flóttamenn á þessu ári, það er algjört yfirfall hér.“
Stjórnandi þáttarins spurði Sigríði þá hvort það að vísa 15 manns úr landi skipti einhverju máli í stóra samhenginu. „Taktu eftir því að þetta áttu að vera 30 manns,“ sagði Sigríður við því. „Í rauninni skil ég ekki af hverju aðalfréttin var ekki að þessir 20, eða hvað þeir voru margir, hafi fundist. Alla þessa viku var það ekki aðalfréttin. Maður spyr sig bara hvar er þetta fólk, hvernig fer um það, er það með skilríki, er það á landinu? Þetta eru spurningar sem þarf að svara.“
Sigmar spurði Sigríði þá hvers vegna fólkið vilji ekki fara. „Af hverju ætli fólkið vilji ekki fara, því þetta er svo gott í Grikklandi ertu að segja,“ sagði Sigmar.
„Auðvitað vill fólk koma hingað en ég spyr þig á móti: Hvað viltu taka á móti mörgum?“ spurði Sigríður til baka og þá sauð upp úr í hljóðverinu. „Hvað vilt þú taka á móti fáum?“ spurðu Helga Vala og Sigmar þá bæði í kjölfarið. Sigríður sagði að það væru rúmlega 100 manns á ári sem væri tekið á móti með skipulögðum hætti í samvinnu við flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. „Já bara kvótafólk sem sagt?“ spurði Helga Vala og við því sagði Sigríður: „Að sjálfsögðu.“
Helga Vala gagnrýndi þetta harðlega. „Henda öllum öðrum út sem ná að komast hingað, hvað eru það margir?“ spurði hún og Sigríður sagði að það væru rúmlega 100 manns. „Þú ert að tala um bara kvótaflóttafólk, þannig allir hinir sem koma hingað í leit að vernd, við eigum að loka á það fólk? Draga okkur úr alþjóðlegum samningum sem við erum aðilar að, sem setja á okkur ákveðnar skyldur um að veita fólki vernd sem hér sækir um vernd, þú ert á því sem sagt? Frábært,“ sagði Helga Vala við því.